Ísland á í stjórnmálasambandi við 180 ríki, sum góð en önnur slæm. Þar á meðal er Norður-Kórea. Eigi að slíta stjórnmálasambandi við Ísrael vegna deilna þeirra við Hamas-samtökin þá þarf að fara yfir listann á ný í þaula, að sögn Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins. Hún spurði Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra út í ummæli Árna Þórs Sigurðssonar, formanns utanríkismálanefndar Alþingis, sem lét þau orð falla að skoða þyrfti að slíta stjórnmálasambandi við Ísrael vegna blóðugra átaka í Palestínu gegn Hamas-samtökunum. Ragnheiður benti á, að ekkert annað ríki væri í þessum hugleiðingum.

„Við eigum ekki að nota þetta mál sem pólitískan hælkrók. Össur svaraði því til að ekki ætti að nota málið fyrir botni Miðjarðarhafs sem pólitískan hælkrók. Við eigum að stilla til friðar en ekki taka pólitíska glímu um þetta mál. Ég hef gert skýra grein fyrir afstöðu minni,“ sagði Össur, fordæmdi aðgerðir Ísraelsmanna og greindi frá ferð sinni til Gasa-svæðisins. Hann sagðist telja deilu Ísraela við Hamas-samtökin og mannfall í röðum Palestínumanna þess eðlis að það verði rætt í utanríkismálanefnd Alþingis. Hann ætlar auk þess að taka málið upp á fundi ríkisstjórnarinnar á morgun.