„Það hefur valdið mér vonbrigðum hversu seint hefur gengið að ljúka málum hjá Umboðsmanni skuldaara,“ segir Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra. Hún ræddi um það á óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag að háar fjárhæðir - einn milljarður króna á ári - hafi verið lagður til umboðsmanns og starfsfólki þar fjölgað til að flýta fyrir lausn mála.

Hún segir koma til greina að endurskoða og endurskipuleggja starf umboðsmanns.

Jóhanna benti hins vegar á að þótt mál virðist þokast hægt og ekki hægt að ráðast í almenna skuldaniðurfærslu þá vænti hún úrlausnar á greiðsluvanda heimilanna í gegnum barna- og vaxtabætur í komandi fjárlögum.

Lögfræðingar mæla með gjaldþroti

Það var Bjarni Benediktsson, formaður og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem spurði forsætisráðherra að því hvort ekki hafi verið bornar of miklar væntingar til Umboðsmanns skuldara. Þá spurði hann hvað ráðherra telji að halda beri lengur áfram með óbreytti sniði hjá stofnuninni þegar úrræði sem til boði standa skila minni árangri en stefnt var að.

Hann benti sömuleiðis á að skuldaúrlausn geti reynst þeim sem fari í gegnum slíkt bæði erfið og dýr.

„Ég vil vekja athygli á því að í auknum mæli mæla lögmenn með því að fólk fari gjaldþrotaleiðina þar sem önnur úrræði ganga seint og hversu þröngum stakki mönnum er sniðinn,“ sagði Bjarni.