„Ég er ekki svona trúgjörn,“ segir útgerðarkonan Guðrún Lárusdóttir, framkvæmdastjóri Stálskipa í Hafnarfirði, um auðlegðarskattinn. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði eftir að hann undirritaði stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks á Laugarvatni í síðustu viku að áhöld séu um það hvort auðlegðarskatturinn standist stjórnarskrá. Hann sé tímabundinn skattur sem renni út í lok árs.

Bjarni sagði um auðlegðarskattinn: „Hann er hluti af þeim leiðum sem ríkisstjórnin fráfarandi skilur eftir sig, og það eru ekki uppi nein áform um að framlengja hann, þvert móti að láta hann falla niður,“ sagði hann.

Guðrún segir í samtali við vb.is ekki trúa Bjarna fyrr en hún fái það skjalfest að skatturinn verði látinn renna út. Bjarni geti dregið í land vanti tekjur í ríkissjóð. Guðrún hefur mótmælt auðlegðarskattinum harðlega, m.a. stefnt ríkinu vegna hans en hún krefst þess að ríkissjóður endurgreiði sér 35 milljónir króna sem hún hefur greitt í auðlegðarskatt síðan hann var tekinn upp árið 2009. Mál hennar gegn ríkissjóði er nú fyrir dómi.