*

fimmtudagur, 17. júní 2021
Innlent 28. mars 2021 12:48

Vill frestun fasteignagjalda

Formaður Fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu segir að ráðningarstyrkir muni ekki nýtast mikið á næstunni.

Ritstjórn
Kristófer Oliversson, formaður Fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu.
Haraldur Guðjónsson

Frestun fasteignagjalda Kristófer Oliversson, framkvæmdastjóri CenterHotels og formaður FHG - Fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu, telur að fólk sé almennt sammála þeirri stefnu að grípa til harðra aðgerða strax í þágu lengri tíma hagsmuna, en leggur áherslu á að aðgerðapakki ríkisstjórnarinnar verði endurskoðaður í ljósi stöðunnar.

„Stóra málið fyrir okkur og hótel- og gistiþjónustuna, er að það verði horft til þess að þær aðgerðir sem hafa verið í gangi verði teknar upp á ný. Huga þarf að framlengingu laga um greiðsluskjól og klára lög um heimild til frestunar fasteignagjalda, en hvoru tveggja er í vinnslu í þinginu þessa dagana. Ráðningarstyrkirnir munu því miður ekki nýtast mikið næstu vikurnar, enda ólíklegt að fyrirtæki hugi að ráðningum eins og sakir standa," segir Kristófer.

Hann segir að áhrif tímabundinna sóttvarnaaðgerða fyrir páskavertíðina verði ekki mikil í samanburði við þá hagsmuni sem felast í að viðspyrna geti hafist eins fljótt og mögulegt er, en sú staða sem upp er komin dragi úr vonum um að viðspyrna sé í nánd.

„Hótelþjónustan hefur verið meira og minna lokuð hvort sem er, og þannig hefur það verið meira og minna í heilt ár. Í okkar tilfelli, þá erum við með átta hótel, tæp 1.000 herbergi, en það eru aðeins ein til tvær nætur sæmilega bókaðar í viku, á einu hóteli. Hér í Reykjavík eru viðskiptin því sáralítil, en auðvitað bundu fyrirtæki vonir við ferðir innanlands á landsbyggðinni um páskana, en mér sýnist að lítið verði úr því vegna þeirrar stöðu sem upp er komin."

Fyrirtækin fá aðgang að rekstrarfé

Kristófer trúir því að í grunninn séu allir sammála um að bregðast hratt og örugglega við aukningu í smitum. Vonir standi til þess að með hörðum aðgerðum taki skemmri tíma að ná tökum á útbreiðslu smita.

„Það skiptir máli að okkur takist að halda smitstuðlinum niðri og landinu um leið sem grænu svæði, þrjár erfiðar vikur eru betri en ónýtt sumar. Þó að enginn geti spáð fyrir um hvernig þessi mál þróast þá bind ég vonir við að þessar aðgerðir dugi til að ná faraldrinum niður, þannig að um miðjan næsta mánuð eða svo megi sjá til lands. En það sem mestu skiptir núna, fyrir fyrirtækin sem hafa safnað skuldum og sum hver verið nánast tekjulaus í heilt ár, verði tryggður aðgangur að rekstrarfé til að mæta fjárþörf þar til starfsemi hefst á ný," segir Kristófer.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér