Kjalar hf., félag í 94% eigu Ólafs Ólafssonar kaupsýslumanns samkvæmt síðasta birta ársreikningi, vill að gjaldmiðlaskiptasamningur sem félagið gerði við Kaupþing í byrjun árs 2008 verði gerður upp miðað við að fyrir hverja evru fáist 305 krónur. Kaupþing telur hins vegar að miða eigi við lög frá 22. apríl 2009, en samkvæmt þeim er virði hverrar evru um 149 krónur þegar kemur að umreikningi á kröfum í bú bankanna.

Fyrirtaka er á morgun í dómsmáli sem Kjalar hefur höfðað gegn Kaupþingi vegna ágreinings um hvernig gjaldmiðlaskiptasamningur skal gerður upp. Nettókröfu Kjalars má rekja til meints gengismunar á evru frá því að samningurinn var endurnýjaður, síðast 6. október 2008, og til 14. október. Miðað við að evran sé 150 krónur fást um 98 milljarðar króna en miðað við 305 krónur fást tæplega 200 milljarðar króna.

Krafa í búið

Kjalar hf. lýsti kröfu í bú Kaupþings og byggði hana á uppgjöri fyrrnefnds gjaldmiðlaskiptasamnings sem fara átti fram 14. október.

Samningurinn var gerður í upphafi árs 2008 eins og áður sagði. Hann var endurnýjaður reglulega allt árið. Síðast var hann endurnýjaður 6. október 2008, sama dag og Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, boðaði setningu neyðarlaga vegna bágrar stöðu bankakerfisins. Samkvæmt þeim samningi átti Kjalar hf. að afhenda Kaupþingi 84,5 milljarða króna en Kaupþing félaginu 653 milljónir evra. Krafa Kjalars byggir á því að raunverulegt markaðsgengi evru gagnvart krónu á efndatíma, þ.e. 14. október 2008, hafi verið endurspeglað hjá Seðlabanka Evrópu en ekki hér á landi. Rök Kjalars eru þau að mögulegt hafi verið að fá 305 krónur fyrir hverja evru á þessum tíma á markaði og liggja frammi gögn frá félaginu þar um.

Ítarlega er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir tölublöð.