Annaðhvort verður að lengja fyrningarfrest á brotum saksóknara við rannsókn mála eða breyta lögunum þannig að fresturinn byrjar ekki að líða fyrr en grunur vaknar um brot,að mati segir Brynjars Níelssonar, þingmanns og hæstaréttarlögmanns. Rætt er við hann í Fréttablaðinu vegna frétta af brotum Sérstaks saksóknara í tengslum við hleranir á samtölum sakborninga og verjenda.

Héraðsdómur Reykjavíkur sagði sérstakan saksóknara hafa brotið gegn lögum með því að hafa hlerað samtöl verjanda og sakborninga í Imon-málinu svokallaða gegn stjórnendum Landsbankans. Þá kærði Hörður Felix Harðarson, verjandi Hreiðars Más Sigurðssonar, fyrrverandi forstjóra Kaupþings, hleranir sérstaks saksóknara á símtölum hans og Hreiðars.

Brynjar segir óeðlilegt að brot rannsóknaraðila séu fyrnd þegar upp um þau kemst. Hann segir að ef rétt sé að sérstakur saksóknari hafi brotið gegn lögum sé honum ekki sætt í embætti. "Endanlegur dómur er ekki fallinn en auðvitað er það þannig að ef menn brjóta lög í embætti þá er þeim ekki sætt þar," segir Brynjar og vill að stjórnvöld og ráðherra bregðist við.