Ríkissjóður ætti að meinalausu geta skorið niður í ríkisrekstrinum með því að loka Bankasýslu ríkisins á næsta ári. Bankasýslan var sett á laggirnar árið 2009 og á samkvæmt lögum að starfa í fimm ár. Gunnar Helgi Hálfdanarson, fráfarandi formaður bankaráðs Landsbankans, segir að þangað til verði að tryggja að Bankasýslan valdi ekki frekari truflun á rekstri Landsbankans.

Gunnar Helgi gagnrýndi Jón Gunnar Jónsson, forstjóra Bankasýslunnar, harðlega á aðalfundi bankans á dögunum og sagði hann m.a. hafa farið inn á starfssvið bankaráðsins. Slæm samskipti við Bankasýsluna hafi dregið úr skilvirkni bankaráðsins og hann reynt að hafa áhrif á rekstur bankans. Forstjóri Bankasýslunnar svaraði því hins vegar til að stofnunin hafi farið að lögum.

Gunnar Helgi skrifar grein um málið í Viðskiptablaðinu undir heitinu „Er krúnudjásnið í góðum höndum?“. Þar segir hann m.a. Bankasýslan hafi farið óvarlega í eigendahlutverki sínu und­ir það síðasta og ekki haldið á hagsmunum ríkissjóðs sem skyldi.

„Afli og ögrunum hefur verið beitt þegar beita hefði átt lipurð og mönnum hef­ur yfirsést valdmörk stofnunarinnar,“ skrifar Gunnar. Hann bendir á að hætta sé á að Bankasýslan verði ríki í ríkinu þar sem Fjármálaeftirlitið geti ekki hlutast til um málefni stofnunarinnar. Hann leggur því áherslu á að fjármálaráðherra grípi í taumana áður en það verður of seint.

Grein Gunnars Helga er hægt að lesa í heild sinni HÉR .