*

föstudagur, 5. júní 2020
Erlent 27. mars 2018 18:02

Vill skipta út forstjóra bankans

Stjórnarformaður Deutsche bank ræðir við vænleg forstjóraefni því John Cryan hefur ekki náð markmiðum um niðurskurð.

Ritstjórn
John Cryan hefur verið forstjóri Deutsche bank frá árinu 2015.
european pressphoto agency

Stjórnarformaður Deutsche bank, Paul Achleitner, sem sjálfur bar einna mestu ábyrgð á því að ráða John Cryan sem forstjóra bankans, er sagður hafa rætt við nokkra aðila til að taka við forstjórastöðunni.

John Cryan, sem var ráðinn til starfa um sumarið 2015, hefur þurft að sæta síaukinni gagnrýni eftir að bankanum tókst ekki að ná markmiðum um niðurskurð. Varaði fjármálastjóri bankans við því í síðustu viku að búast mætti við lélegri afkomu á fyrsta ársfjórðungi en upphaflega hafði verið gert ráð fyrir.

Gengi bréfa bankans hafa lækkað um 29% það sem af er þessu ári, en ekki er sátt um það hvort skipta eigi út forstjóranum í stjórninni þó stjórnarformaðurinn hafi leitað hófana eftir nýjum stjórnenda.

Meðal þeirra sem orðaðir eru við stöðuna eru Jean-Pierra Mustier frá UniCredit SpA á Ítalíu og evrópustjóri Goldman sachs Group, Richard Gnodde. Hefur Achleitner rætt sjálfur við þann síðarnefnda á síðustu mánuðum að því er WSJ segir frá.

Bankinn hyggst birta uppgjör fyrsta ársfjórðungs 26. apríl næstkomandi og mánuði síðar verður aðalfundur bankans í Frankfurt.