Nýleg skýrsla Hagfræðistofnunar um styrkjakerfi landbúnaðarins hefur vakið athygli, en þar er t.a.m. bent á að stór hluti styrkja rennur ekki beint til bænda sjálfra. „Við erum með skólabókardæmi um það í landbúnaði hvernig hægt er að breyta kerfi til að skapa aðstæður sem ýta undir samkeppni,“ segir Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins.

„Á grænmetismarkaði voru innflutningshömlur afnumdar og stuðningi breytt í framleiðslustyrki. Framleiðsla jókst og verð lækkaði án þess að það hefði neikvæð áhrif á innlenda framleiðendur. Í mjólkinni var tekin sú ákvörðun að taka mjólkurframleiðslu undan samkeppnislögunum, með þeim rökum að verið væri að búa íslenskan mjólkuriðnað undir erlenda samkeppni. Þetta er svolítið eins og ef HSÍ myndi ákveða að sameina öll félagslið í handbolta til að búa til betra landslið til þátttöku á erlendum mótum. Með því myndirðu eyðileggja það umhverfi sem býr til afreksmennina. Það sama á við um landbúnað. Þar er miklu heppilegra að breyta styrkjum úr samkeppnis- og framleiðsluletjandi aðgerðum, eins og innflutningshömlum, í framleiðsluhvetjandi aðgerðir. Ég held að landbúnaður muni alltaf njóta opinberra styrkja, enda er mikilvægt að hér sé landbúnaður og matvælaframleiðsla, en stuðningurinn getur annaðhvort verið uppbyggilegur eða ekki. Uppbyggilegur opinber stuðningur með aukinni samkeppni, einnig erlendri , er mun heppilegra fyrirkomulag að mínu mati.“