Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, lagði fram fyrirspurn til dómsmálaráðherra á Alþingi í dag um ástæður símhlerana frá ársbyrjun 2008.

Helgi vill vita hversu oft hefur verið beðið um heimild til símhlerunar frá árinu 2008. Enn fremur vill hann vita hversu oft slík heimild hafi verið veitt á tímabilinu og hve oft synjað. Þá spyr hann einnig hversu lengi hlerun stóð í hverju tilviki, hversu oft tveir eða fleiri einstaklingar voru hleraðir vegna sömu rannsóknar og í hve mörgum tilvikum hafi sá sem var hleraður ekki verið ákærður eða sýknaður ef ákært var. Svörin vill hann fá sundurliðuð eftir brotategundum og dómstólum.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson mun sitja fyrir svörum spurninganna, en hann er nú dómsmálaráðherra eftir að Hanna Birna Kristjánsdóttir sagði sig frá embættinu.

Símhleranir embættis sérstaks saksóknara hafa verið mikið til umræðu að undanförnu eftir viðtal Fréttablaðsins við Jón Óttar Ólafsson þar sem hann hélt því fram að embættið hefði hlustað á símtöl sakborninga við lögmenn sína.