Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, mun gangsetja tvær vindmyllur Landsvirkjunar með viðhöfn á morgun. Vindmyllurnar eru um 15 km norðan við Búrfellsstöð. Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, tekur á móti gestum og fulltrúi Enercon, framleiðanda vindmyllanna, afhendir Landsvirkjun vindmyllurnar til rekstrar.

Fram kemur í tilkynningu frá Landsvirkjun að vindmyllurnar eru framleiddar af þýska fyrirtækinu Enercon, sem sérhæfir sig í framleiðslu gírlausra vindmylla til notkunar á landi. Starfsmenn Enercon hófu uppsetningu á vindmyllunum í desember og hafa undanfarið unnið að forrekstrarprófunum. Nú er komið að formlegri gangsetningu þar sem þær vinna raforku inn á hið íslenska raforkukerfi.

Vindmyllurnar eru hvor um sig 900 kW en samanlögð áætluð raforkuframleiðsla þeirra er um 5,4 GWst á ári. Hæð mastursins er 55 metrar og hver spaði er um 22 metrar á lengd. Þegar spaðinn er í efstu stöðu er því heildarhæð hverrar vindmyllu 77 metrar.

Uppsetning vindmyllanna er liður í rannsóknar- og þróunarverkefni Landsvirkjunar á hagkvæmni vindorku á Íslandi.