Framleiðsla raforku með vindorku er nú meiri en framleiðsla raforku úr eldsneyti samkvæmt framleiðslutölum. Vindurinn skreið fram úr eldsneytinu þegar í marsmánuði, segir á vef Orkustofnunar .

Vindmyllur Landsvirkjunar voru settar upp í desember síðastliðnum og í rannsóknarskyni og eru staðsettar norðan við Búrfell á hraunsléttu sem kölluð er Hafið. Hagkvæmni raforkuframleiðslu með vindorku hefur aldrei fyrr verið könnuð á Íslandi og eru vindmyllurnar tvær sem reistar hafa verið þær fyrstu af þessari stærðargráðu á Íslandi.

Rannsóknir verða gerðar til að sjá hvernig vindmyllurnar koma út við íslenskar aðstæður eins og til að mynda hvað varðar ísingu, skafrenning, og ösku- og sandfok.

Vindmyllurnar eru hvor um sig 900 kW og samanlögð raforkuframleiðsla þeirra er áætluð um 5,4 GWst á ári. Það myndi nægja til að sjá um 1.200 heimilum fyrir rafmagni til daglegra nota.