Rúmlega tíu íslensk fyrirtæki vinna að ýmsum jarðvarmaverkefnum í um 40 löndum. Flest verkefnanna eru á sviði ráðgjafar til erlendra aðila á sviðið nýtingar jarðvarma. Jarðboranir er hins vegar eina fyrirtækið sem sinnir borverkefnum erlendis vegna jarðhitanýtingar. Stærstu fyrirtækin og stofnanirnar á sviði ráðgjafaverkefna eru Reykjavík Geothermal, Íslenskar orkurannsóknir (ÍSOR), Mannvit, Efla og Verkís.

Davíð Stefánsson, forstöðumaður ráðgjafasviðs Reykjavík Geothermal, segir í samtali við Markaðinn, fylgiblað Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál, að fyrirtæki og stofnanir hafi styrkt ímynd íslenskrar sérstöðu þegar kemur að nýtingu jarðvarma.

„Að byggja upp ráðgjafarstörf eins og þessi er hins vegar langhlaup. Hrunið ýtti enn frekar við mönnum til að sækja verkefni erlendis og undanfarin tvö til þrjú ár hafa fyrirtækin sett aukinn kraft í þessa sókn,“ segir hann.