Rúmlega fimmti hver einstaklingur sem skráður er á atvinnuleysisskrá er með háskólamenntun. Samtals voru 1.467 háskólamenntaðir einstaklingar með háskólamenntun á atvinnuleysisskrá í maí en samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar var alls 6.591 einstaklingur atvinnulaus. Ljóst er að þeir sem útskrifast úr háskóla í dag koma inn í allt annan veruleika en var hér á árum áður. Fyrir tíu árum voru 9% allra þeirra sem skráðir voru á atvinnuleysisskrá með háskólamenntun en eru í dag 22%.

Sverrir Briem, sviðsstjóri ráðninga hjá Hagvangi, segir að staðan á vinnumarkaði fyrir þá sem eru að koma úr háskólanámi í dag sé betri en fyrir ári síðan að hans mati. Hann segir ástandið á vinnumarkaðnum hafa batnað og muni líklega gera það áfram. Spurður út í umræðuna um offramboð á fólki með ákveðna menntun eins og lögfræðingumog viðskiptafræðingum segir Sverrir að hann hafi litla trúa á því að of mikið framboð sé af fólki með góða menntun en að það sé þó visst áhyggjuefni hversu margir fari ávallt í fög eins og viðskiptafræði og lögfræði. Þetta eigi sérstaklega við þegar vöntun er til dæmis á fólki í tæknigeiranum.

Sverrir segir þróunina vera í þá átt að einstaklingar með þessa menntun fari að færa sig meira út í aðrar atvinnugreinar þegar út á markaðinn er komið en að það þurfi ekki að vera slæmt og þekkist til dæmis víða erlendis. Þeir sem ákveði að fara í lögfræði þurfi þá ef til vill að endurskoða hvað það er sem þeir vilja gera að námi loknu því það sé ekki svo að þeir endi allir í lögmannsstörfum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .