Félagsmenn VR í fullu starfi vinna að meðaltali 43,3 klukkustundir á viku sem er um einni og hálfri klukkustund skemur en á árunum 2004 – 2008 en þá var vinnuvikan um 45 stundir.

Þetta kemur fram í niðurstöðum launakönnunar VR fyrir árið 2009 sem birt er á vef VR en niðurstöðurnar í heild verða birtar í vikunni.

„Í ljósi þeirra breytinga sem orðið hafa á vinnumarkaði á síðustu mánuðum kemur þróun vinnutímans ekki á óvart,“ segir á vef VR.

Konur vinna styttri vinnuviku en karlar og munar rúmum þremur klukkustundum; 41,6 stundir á viku á móti 45,1 stund.

Vinnuvika stjórnenda og sérfræðinga er lengst, 45 stundir en skrifstofufólk vinnur styst, 40,3 stundir. Vinnuvikan er lengri í stærri fyrirtækjum en þeim minni, t.d. er hún að meðaltali 45 stundir í fyrirtækjum þar sem heildarfjöldi starfsmanna er 500 eða fleiri en um 42,5 stundir í fyrirtækjum þar sem starfsmenn eru færri en 20.