Vinstri grænir hafa sent forsætisráðherra og forseta Alþingis bréf þar sem óskað er eftir því að Alþingi verði kallað til funda strax eftir verslunarmannahelgi til að ræða stöðuna í efnahags- og atvinnumálum.

Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs kom saman í dag og ræddi horfur í efnahags- og atvinnumálum. Í ályktun fundarins segir að lengi hafi verið ljóst að stóriðjufjárfestingar, skattalækkanir á þenslutímum, skuldsett útrás og gáleysisleg framkoma banka myndi leiða af sér þenslu, verðbólguþrýsting og „geigvænlegan viðskiptahalla“ sem valda myndi vandræðum í efnahags- og atvinnulífi þjóðarinnar.

Þá eru stjórnarflokkarnir gagnrýndir í ályktun Vinstri grænna fyrir að eyða orku í rifrildi um Evrópumál. „Tal um upptöku evru eða inngöngu í Evrópusambandið sem lið í lausn þess vanda sem nú er við að glíma er flótti frá veruleikanum. Það sem þarf er að við tökumst á við ástandið sjálf, Íslendingar, og vinnum okkur út úr erfiðleikunum og það höfum við alla burði til að gera,“ segir í ályktuninni.

„Þó vissulega sé geigvænleg verðbólga, okurvextir, sveiflur í gjaldeyrismálum og aukin misskipting í samfélaginu, allt erfið vandamál sem kostar átak að leysa, er það vel hægt. Með bjartsýni og kjark og trú á möguleika íslensks samfélags, mannauð þjóðarinnar og með vilja til að vinna sig út úr erfiðleikunum mun þjóðin sigrast á þessum vanda,“ segir í lok ályktunar Vinstri grænna.