Viðræður milli Orkuveitu Reykjavíkur og Geysis Green Energy sem hófust eftir að borgaryfirvöld og síðar OR féllu frá samruna Reykjavík Energy Invest og GGE hafa „gengið frekar rólega“ frá því fyrir jól, að sögn Ásgeirs Margeirssonar, forstjóra GGE. Þegar hann er spurður um hvað þær viðræður hafi snúist svarar hann: „Þegar sameina átti REI og GGE átti að leggja inn í það sameinaða félag Enex, Enex í Kína, tæplega áttatíu prósent í Iceland America Energy og eignarhluti Geysis og Orkuveitunnar í Hitaveitu Suðurnesja, sem hefðu verið á bilinu 49 til 63% eftir því hvað yrði um hlut Hafnarfjarðar.“ Auk þessa átti allur rekstur REI og Geysis að ganga inn í hið sameinaða félag REI og GGE. „Viðræðurnar hafa snúist um það hvað eigi að gera við þessar eignir.“

Bryndís Hlöðversdóttir, fyrrverandi stjórnarformaður OR, leiddi viðræðurnar fyrir hönd Orkuveitunnar þar til skipt var um stjórn í OR í janúar síðastliðnum. Ásgeir segir eðlilegt að ný stjórn OR fái tíma til að komast inn í málið en býst við að viðræðurnar haldi áfram eftir það. Hann segir að viðræðurnar hafi verið á góðu róli hjá fyrrverandi meirihluta en engin niðurstaða hafi þó verið komin í málið. Spurður út í kröfur GGE í þessu máli svarar hann: „Við höfum lagt áherslu á að málið sé leyst skynsamlega í heild sinni og höfum ekki haldið neinum kröfum á lofti.“

Umræddar viðræður komu til tals á stjórnarfundi OR í byrjun mánaðarins. Í fundargerð kemur fram að forstjóri OR, Hjörleifur Kvaran, og Andri Árnason hrl. hafi þar gert grein fyrir þeim. Hjörleifur vill í samtali við Viðskiptablaðið lítið gefa upp um þær. Hann segir hins vegar að GGE hafi á sínum tíma talið að ekki hafi verið lögformlega staðið að því hvernig fallið var frá samruna REI og GGE. Forsvarsmenn GGE hafi þó ekki sett fram neinar kröfur.

Eins og fram hefur komið í Viðskiptablaðinu er áhugi á því hjá forsvarsmönnum GGE að sameina það Enex. GGE á um 73% í Enex en REI, dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur, 26%. GGE hefur, að sögn Hjörleifs, talað um að greiða fyrir hlutinn með hlutafé í GGE. Engin ákvörðun hefur hins vegar verið tekin um málið af hálfu Orkuveitunnar, að sögn Hjörleifs. Þar er það enn til skoðunar.