Matthías Imsland, forstjóri Iceland Express, segist ekki líta svo á að Júlíus Pálsson, fyrrverandi eigandi Heklu Travel - ferðaskrifstofunnar, eigi inni árangurstengdar greiðslur hjá Fons.

Júlíus hélt því fram í Viðskiptablaðinu í dag. Hann segir Fons skulda sér 1,5 milljónir danskra króna.

Iceland Express keypti sem kunnugt er Heklu Travel nýverið út úr þrotabúi Fons. Ferðaskrifstofan markaðssetur og selur Norðurlandabúum, einkum Dönum, ferðir til Íslands.

Forsaga málsins er sú að Fons, félag í eigu Pálma Haraldssonar, keypti Heklu Travel af Júlíusi um mitt ár 2006. Inni í samningnum um kaupin var klásúla um greiðslu upp á 2 milljónir danskra króna sem tengd var, að sögn Matthíasar, við afkomu félagsins. Fimm hundruð þúsund krónur af því hafa þegar verið inntar af hendi.

„Þegar Fons keypti félagið [Heklu Travel] var það nánast komið í þrot," útskýrir hann. Fons hafi síðan ítrekað þurft að koma með aukið hlutafé í Heklu til að halda því gangandi. Forsvarsmenn Fons hafi því litið svo á að ekki væru forsendur til þess að greiða út meira til Júlíusar af þeirri einföldu ástæðu að fjárhagur Heklu Travel hafi ekki leyft það.

Júlíus segir í Viðskiptablaðinu í dag að hann hafi hafið innheimtuaðgerðir gegn Fons þegar það síðarnefnda fór í þrot fyrr á árinu. Hann viti nú ekki hvert hann eigi að snúa sér með kröfu sína.

Vildi halda markaðsstarfinu áfram í Danmörku

Iceland Express er í eigu Fengs sem einnig er í eigu Pálma Haraldssonar. Matthías segir, þegar hann er spurður út í ástæðu þess að flugfélagið keypti Heklu Travel, að hann hafi ekki viljað að markaðssetning Íslandsferða yrði lögð af í Danmörku. Hekla Travel selji fjölda Dana ferðir til Íslands á ári hverju.

Hann segir að Hekla Travel hafi verið keypt fyrir lága upphæð, en vill ekki opinbera hana. Þá segir hann að skiptastjóri þrotabús Fons hafi lagt blessun sína yfir kaupin.

Níu manns starfa hjá Heklu Travel í Kaupmannahöfn, segir Matthías, og eru starfsmennirnir íslenskir, danskir og sænskir.