Vísitala íbúðaverðs mældist 307,1 stig í maí og lækkaði um 0,2% frá fyrri mánuði. Árshækkun vísitölu íbúðaverðs nemur nú 13,2%. Verð á bæði fjölbýli og sérbýli lækkaði á milli mánaða, en fjölbýli þó meira, að sögn greiningardeildar Landsbankans.

"Lækkun þessi kemur í kjölfar töluverðra hækkana síðastliðna þrjá mánuði og gæti því verið merki um kólnun á fasteignamarkaði. Þó ber að varast að oftúlka breytingar fasteignaverðs á milli mánaða þar sem sveiflur geta verið töluverðar. Síðast lækkaði vísitala fasteignaverðs um 0,9% á milli mánaða í desember síðastliðnum, en fasteignaverð hélt þó áfram að hækka mikið eftir það," segir greiningardeildin.

Hún segir að breyttar aðstæður á fasteignamarkaði, frá því að fjármögnun íbúðarhúsnæðis var sem hagstæðust, ætti að stuðla að minni hækkunum húsnæðisverðs í náinni framtíð, en vextir á húsnæðislánum hafa hækkað um 0,45-0,75 prósentur frá því að þeir voru lægstir (4,15%). Einnig hafa bankarnir hert á útlánareglum og lækkað viðmiðanir varðandi hámarksveðhlutföll í fasteignalánum.

"Kólnun á fasteignamarkaðnum kemur heldur seinna en við höfum áður spáð. Þróunin er þó að mestu í takt við spá okkar frá því í maí í fyrra, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. Íbúðaverð, samkvæmt vísitölu Fasteignamatsins, er í dag um 6% hærra en við gerðum ráð fyrir í þessari ársgömlu spá," segir greiningardeildin en hún gerir ráð fyrir um 5% hækkun fasteignaverðs fyrir árið í heild.

Þá segir hún að til þess að spáin gangi eftir þyrfti fasteignaverða að haldast nánast óbreytt út árið.