Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,32% milli desember og janúar og var hækkunin töluvert umfram spár viðskiptabankanna. Spár viðskiptabankanna lágu á bilinu -0,2% til 0,1% og var meðalspáin 0,07% lækkun. Íslandsbanki var næstur raunverulegu gildi en hann spáði 0,1% hækkun, Landsbankinn spáði 0,2% lækkun en KB banki spáði 0,1% lækkun.

Í upplýsingum frá Hagstofunni kemur fram að 12 mánaða verðbólga var 4,4% nú í janúar sem er mesti verðbólguhraðinn síðan í október þegar 12 mánaða hækkun nam 4,6%. Verðbólga í desember mældist 4,1%. Verðbólga án húsnæðis heldur áfram að vera lítil eða einungis 1%. Undanfarna þrjá mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 0,5% sem jafngildir 2,1% verðbólgu á ári.

Eigið húsnæði í vísitölu neysluverðs hækkaði um 2,1% (vísitöluáhrif 0,35%). Þar af voru áhrif af hækkun markaðsverðs á húsnæði 0,31%. Áhrifin af hækkun meðalvaxta voru 0,02% og áhrif af hækkun lóðarleigu 0,03%. Ýmis gjöld vegna húsnæðis hækkuðu um 9,4% (0,11%). Þá hækkaði verð á bensíni og díselolíu um 2,2% (0,11%).

Vetrarútsölur eru víða hafnar og lækkaði verð á fötum og skóm um 10,3% (vísitöluáhrif -0,55%). Gjald fyrir dagvistun barna lækkaði um 9,3% (-0,1%).