Viðskiptahalli þeirra fimmtán ríkja sem mynda evrusvæðið minnkaði snarlega í júní en er enn talsvert frá væntingum að því er fréttavefur BBC greinir frá í dag.

Viðskiptahallinn var í júní 101 milljón evra, en var í maí 3,9 milljarðar evra.

Samkvæmt upplýsingum frá Eurostat var gert ráð fyrir að viðskiptahagnaður í júní yrði allt að 1,2 milljarðar evra í júní þannig að eins og áður kom fram er hallinn nokkuð frá væntingum greiningaraðila. Viðmælendur BBC segja þessa tölur vera töluverð vonbrigði.

Helsti áhrifavaldur á viðskiptahallan er að sögn BBC hækkandi verð á orku og eldsneyti. Þá hefur eftirspurn eftir vörum frá Bandaríkjunum minnkað þar sem Bandaríkjadalur hefur verið að styrkjast síðustu vikur. Að sama skapi hefur eftirspurn eftir evrópskum vörum minnkað en mörg félög, til að mynda þýskir bílaframleiðendur, hagnast vel þegar evran er sterk gagnvar dollar.

Innflutningur á evrusvæðið nam í júní 135,6 milljörðum evra en útflutningur frá evrusvæðinu nam 135,5 milljörðum evra.