Á föstudag voru birtar tölur yfir utanríkisviðskipti Bandaríkjanna í júnímánuði. Jókst halli á vöruskipta- og þjónustujöfnuði töluvert frá fyrri mánuði og mældist hann rúmlega 55 ma. dollarar og nokkuð yfir væntingum. Hækkandi olíuverð keyrði upp innflutningskostnað og spurn eftir bandarískri framleiðslu erlendis frá minnkaði. Útflutningur dróst saman um 6,2% á milli mánaða, á sama tíma og innflutningur jókst um 3,5%.

Í Morgunkorni Íslandsbanka er bent á að olíuverð eigi stóran þátt í auknum innflutningskostnaði, en eins og tíðrætt er orðið hefur olíuverð hækkað umtalsvert á síðustu mánuðum. Það sem af er ágústmánuði hefur verð á olíu til að mynda náð sögulegu hámarki alla viðskiptadaga nema einn og var verð nú í morgun rétt undir 47 dollurum á markaði í New York. Vonir standa þó til um að nýafstaðnar kosningar í Venesúela, þar sem forseti landsins hélt völdum, muni slá eitthvað á verðið, en markaðsaðilar höfðu óttast að úftlutningur þaðan myndi stöðvast færu kosningarnar á annan veg.