Kamal Nath, viðskiptaráðherra Indlands, segir að enginn samningur náist úr Doha viðræðunum sem standa nú yfir í Hong Kong, nema iðnríki hætti að krefjast þess að þróunarríki gefi eftir í kröfum sínum í skiptum fyrir að afnema höft í landbúnaði. Þessi höft eigi ekki að vera fyrir hendi hvort sem er. Í viðtali við Financial Times segir Nath: "Það angrar mig mest að iðnríkin spyrja: Hvað viljið þið borga okkur fyrir að hætta því sem við ættum ekki að gera? Þessi nálgun mun ekki bera árangur."

Nath virðist svartsýnn á að takast muni að brúa bilið milli hinna ýmsu hagsmunahópa í Doha viðræðunum. Hann er einn af ráðherrum 149 þjóða í Alþjóðaviðskiptastofnuninni, WTO, sem sátu við samningaborðið fram undir fimmtudagsmorgun, á þriðja degi fundarins í Hong Kong.

Nath er spurður hvort hann telji líklegt að fundurinn leysist upp og enginn árangur náist. "Þetta er erfitt verkefni vegna þeirra væntinga sem voru gerðar til fundarins -- um tölur og niðurstöður -- og ekki munu rætast. Enginn vill kalla þetta sjálfheldu, þannig að [verkefnið er að] finna orð og frasa sem lýsa þessu ekki sem sjálfheldu."

Neita að horfast í augu við breytingar

Nath segist telja að Evrópusambandið, Bandaríkin og önnur rík lönd verði að sætta sig við þá staðreynd að þau væru að verða minna samkeppnishæf og gætu ekki haldið áfram að halda niðri þeim veikleika "í landbúnaði, til dæmis" með því að beita ósanngjörnum niðurgreiðslum. "Þróuðu löndin neita að horfast í augu við nýja uppbyggingu efnahagslífsins í heiminum," segir hann.

Hann segist vonast til þess að fundurinn í Hong Kong verði til þess að hafist verði handa við að brjóta niður "ójöfnuð heimsviðskipta". Hann bætir við: "Ég held að við munum komast lengra en Genfartextinn [uppkastið að yfirlýsingu fundarins], við munum reyna að setja einhvern skriðþunga í þetta. En það sem við þurfum að gera er að setja ekki skriðþungann í Genfartextann. Það sem við þurfum er hugarfarsbreyting." Hann segist ekki sjá merki um þá breytingu.