Viðskiptaráðherra ætlar að láta kanna hvort heimilt sé af Exista að greiða fyrir bréf í Skiptum, móðurfélagi Símans, með nýjum hlutabréfum í sjálfu sér - og þannig gera að engu kaup almennings á hlutabréfum í Skiptum. Þetta kom fram í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins.

Þegar Síminn var einkavæddur var sett skilyrði um að 30% í félaginu yrði sett á almennan markað og almenningi í landinu yrði gefinn kostur á að kaupa hlut í félaginu. Í útboðinu sem fram fór í fyrri viku seldist aðeins um fjórðungur af þeim 30% sem til sölu voru.

Skipti, móðurfélag Símans var síðan skráð í Kauphöll Íslands í gærmorgun en stoppaði stutt því aðeins 15 mínútum eftir að viðskipti hófust gerði Exista yfirtökutilboð í alla hluti félagins. Býðst félagið til að kaupa hlutina með auknu hlutafé.

Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra sagðist í kvöldfréttum RÚV skilja að eigendur Skipta vilji taka það af markaði í svo vondu árferði. Hann furðar sig á því að greiða eigi fyrir bréf í yfirtökunni með hlutbréfum í Exista.