Í frétt á síðu Viðskiptaráðuneytisins er sagt frá því að ríkisstjórnin hefur samþykkt að leggja til 4 milljónir króna til að bregðast við hækkun verðlags.

Peningunum er veitt til nokkurra verkefna, m.a. til ASÍ til að framkvæma sérstakt átak í verðlagseftirliti og fylgjast með þróun vöruverðs með tíðari hætti en áður. Í frétt ráðuneytisins segir að nauðsynlegt sé að almenningur fái greinargóðar upplýsingar um verðþróun einstakra markaðsaðila og í einstökum vöruflokkum.

Einnig er styrkt sérstakt átak sem Neytendastofu er ætlað að fara í í eftirliti með verðmerkingum á vöru og þjónustu. Stefnt er að því að kveðið verði á um viðurlög í þeim tilvikum sem reglum er ekki fylgt, en viðurlögin verða í formi sekta og ákvarðanir um þau birt á heimasíðu Neytendastofu.

Enn fremur verður skipaður sérstakur starfshópur til að endurskoða reglur um netverslun til að auka samkeppni og lækka vöruverð og ráðist verður í kynningarátak í þeim tilgangi að hvetja neytendur til að gera verðsamanburð og gæta að eigin hagsmunum við kaup á vöru og þjónustu. Unnið verður með Samtökum verslunar og þjónustu að aukinni hagræðingu í verslunarrekstri.