Útflutningsráð, í samstarfi við utanríkisráðuneytið og sendiráð Íslands í Japan, er þessa dagana að undirbúa fjölmenna viðskiptasendinefnd sem fer til Japans dagana 10.-15. september n.k. Davíð Oddsson, utanríkisráðherra, mun fara fyrir sendinefndinni.

Vilhjálmur Guðmundsson, forstöðumaður hjá Útflutningsráði, segir að ferðin sé sniðin bæði að þeim fyrirtækjum sem séu þegar í viðskiptum á svæðinu og þeim sem vilji hefja samstarf eða markaðssókn inn á þennan markað. Einnig henti hún þeim aðilum sem tengjast þróunarstarfi, fjármögnun og rannsóknum.

Skipulögð verður viðskiptaráðstefna, lítil sýning, fyrirtækjastefnumót og móttaka á Le Merdian hótelinu í Tókýó. Farið verður til Nagoya á heimssýninguna Expo 2005 sem lýkur síðar í mánuðinum. Útflutningsráð hefur valið samstarfsaðila í Tokyo sem þekkja mjög vel til á þessum markaði og hafa reynslu í skipulagningu viðskiptafunda. Þeirra hlutverk verður að skipuleggja viðskiptafundi fyrir þátttakendur í sendinefndinni, sem þess óska, í samráði við Útflutningsráð.

Frekari upplýsingar um ferð viðskiptasendinefndarinnar veita Vilhjálmur Guðmundsson og Theodór A. Bjarnason.