Vinnuhópur EFTA ríkjanna og Rússlands um nánari viðskipta- og fjárfestingatengsl hélt fyrsta fund sinn í Moskvu í fyrradag og náðist þar samkomulag um innihald og kaflaskiptingu sameiginlegrar skýrslu vinnuhópsins um nánari viðskipta- og fjárfestingatengsl milli Rússlands og EFTA – ríkjanna.

Endanleg útgáfa skýrslunnar á að liggja fyrir í haust, og er reiknað með að hún verði forsenda viðræðna á milli þessara aðila um fríverslun. Það er hins vegar pólitísk ákvörðun hvort og hvenær slíkar viðræður hæfust. Vinnuhópurinn var stofnaður í desember síðast liðnum og á fundinum á miðvikudag var skipst á upplýsingum um þróun viðskipta og fjárfestinga milli EFTA – ríkjanna og Rússlands og lagalegan ramma fyrir þau.