Svissnesk-belgíska lyfjafyrirtækið Janssen-Cilag hefur valið Vistor hf. til samstarfs á Íslandi frá og með 1. janúar 2006, segir í tilkynningu Vistors.

Janssen-Cilag er lyfjafyrirtæki í eigu bandarísku fyrirtækjasamsteypunnar Johnson & Johnson, sem er ein stærsta fyrirtækjasamsteypa í heimi í framleiðslu á lyfjum, lækningatækjum og öðrum vörum fyrir heilbrigðismarkaðinn. J&J starfar í 52 löndum og eru vörur þess seldar í yfir 175 löndum. Janssen-Cilag er mjög öflugt lyfjafyrirtæki í Evrópu með höfuðstöðvar í Belgíu.

Á Íslandi er Janssen-Cilag með um 4% markaðshlutdeild á þessu ári og er áætluð velta fyrirtækisins á næsta ári um 370 milljónir íslenskra króna. Helstu lyfjaflokkar fyrirtækisins eru blóðskorts- og blóðsjúkdómalyf, lyf við ofvirkni og athyglisbresti, meltingarfæralyf, geðlyf, flogaveikilyf, lyf við Alzheimer og sveppalyf. Starfsmenn Janssen-Cilag á Íslandi eru fjórir.