Óvenju víðtækur stuðningur er innan allsherjarnefndar Alþingis við frumvarp dómsmálaráðherra um embætti sérstaks saksóknara. Þetta kom fram í máli Birgis Ármannssonar, formanns nefndarinnar, á Alþingi í dag.

Hann sagði sömuleiðis að samstaða og vilji væri til þess að flýta afgreiðslu frumvarpsins úr nefndinni.

Dómsmálaráðherra, Björn Bjarnason, mælti fyrir frumvarpinu í síðustu viku. Eftir fyrstu umræðu fór frumvarpið til umfjöllunar í allsherjarnefnd.

Í frumvarpinu er miðað við að sá saksóknari starfi tímabundið og að verkefni hans verði að annast rannsókn á grun um refsiverða háttsemi í aðdraganda bankahrunsins og eftir atvikum fylgja henni eftir með útgáfu ákæru og saksókn.

Fram kom í máli nokkurra þingmanna á Alþingi í dag að þeir óttuðust að of hægt gengi að afgreiða málið.

Siv Friðleifsdóttir, Framsóknarflokki, spurði til að mynda hvort þegar væri verið að eyða "gögnum í kerfinu" eins og hún orðaði það, til að fela upplýsingar.

Undir þær áhyggjur tók m.a. Jón Magnússon, þingmaður Frjálslynda flokksins.

Frumvarpið í heild sinni má finna hér .