Ísland og Færeyjar verða sameiginlegt efnahagssvæði eftir að Hoyvíksamningurinn, sem undirritaður var í Færeyjum þann 31. ágúst síðastliðinn tekur gildi. í Stiklum, vefriti viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, kemur fram að samningurinn er víðtækasti viðskiptasamningur sem Ísland hefur gert til þessa, þó EES samningurinn hafi verið mun umfangsmeiri.

Með samningnum er komið á frjálsum viðskiptum með vörur og þjónustu, frjálsum fjármagnsflutningum og frjálsri för fólks milli landanna tveggja. Samningurinn kveður á um að hvers kyns mismunun á grundvelli þjóðernis, búsetu, staðfestu lögaðila eða upprunalands vöru á hinu sameiginlega efnahagssvæði sé bönnuð milli samningsaðila, nema með örfáum undantekningum. Samningurinn hefur því í för með sér að þegnar ríkjanna tveggja njóta sömu réttinda í viðskiptum, þó að undanþegnum viðskiptum
með sjávarafurðir.

Samhliða Hoyvíksamningnum var gerður bráðabirgðasamningur
sem útvíkkar fríverslunarsamning landanna frá 1992 um viðskipti
með landbúnaðarvörur. Samsvarandi ákvæði og eru í
Hoyvíksamningnum á sviði landbúnaðar hafa því þegar tekið gildi.
Utanríkis- og landbúnaðarráðuneyti hafa frá gerð samningsins kynnt
efni hans fyrir íslenskum útflytjendum og hagsmunaaðilum. Miklar
væntingar eru bundnar við stóraukna markaðshlutdeild Íslendinga í
landbúnaðarvörum í Færeyjum því þarna hefur opnast 50 000 manna
markaður með svipaðar neysluvenjur og Íslendingar segir í Stiklum.