Væntingavísitala Gallup mælist 102,2 stig í febrúar og lækkar um tæplega 14 stig frá því í janúar. Lækkunin á milli mánaða nemur tæpum 12% og hefur gildi vísitölunnar ekki verið lægra frá því í júlí 2006. Þetta kemur fram í morgunkorni Glitnis.

Greiningadeild Glitnis segir að væntingar íslenskra neytenda virðist nokkuð litaðar af þeim óróa sem ríkt hefur á fjármálamörkuðum undanfarna mánuði og mælist væntingavísitalan nú tæpum 48 stigum lægri en í febrúar í fyrra.

„Tiltrú íslenskra neytenda á núverandi ástandi í efnahags- og atvinnumálum minnkar umtalsvert mill mánaða. Undirvísitalan sem tekur til  mats á núverandi ástandi lækkar um heil 33 stig og mælist nú tæplega 118 stig. Væntingar til ástandsins eftir sex mánuði lækka lítillega frá fyrra mánuði og mælast nú 91,7 stig, en sé mælingin undir 100 stigum eru fleiri svartsýnir en bjartsýnir,” segir í morgunkorni Glitnis.

Þá lækkar mat á efnahagslífinu töluvert og mælist 82,1 stig og mat á atvinnuástandinu lækkar einnig en það mælist 103,1 stig.

Greiningadeildin segir það vekja athygli að lækkun á væntingum á  milli mánaða er mest meðal fólks í tekjulægsta hópnum.

„Athygli vekur að mat á núverandi ástandi lækkar verulega milli mánaða og ætla má að þar hafi áhrif að sú lánsfjárkrísa sem ríkir á heimsmörkuðum hefur nú teygt anga sína til Íslands með áþreifanlegri hætti en áður,” segir í morgunkorni Glitnis.