Markaðsverðmæti Fjarskipta hf., rekstraraðila Vodafone á Íslandi, er metið á bilinu 9,66 til 11,2 milljarða króna í hlutafjárútboði á 50 til 60 prósenta hlut við skráningu í Kauphöll. Útboðsgengið liggur á bilinu 28,8 til 33,3 króna á hlut en hver hlutur er tíu krónur. Í september var hlutafé aukið um tvo milljarða til lækkunar skulda. Eigendur nutu forgangs á þeim bréfum og skráðu sig fyrir bréfunum. Þá var gengið lægra eða um 24,8 krónur á hlut. Hlutabréfaverð er því metið 16 til 34 prósentum hærra nú en í september.

Hafliði Helgason, upplýsingafulltrúi Framtakssjóðs Íslands, segir að eðlismunur sé á útboðunum tveimur þar sem ákvörðun um hlutafjáraukningu í september hafi verið tekin af stjórn Vodafone en nú sé það seljandinn, það er FSÍ, sem ákveður að selja bróðurpart af eign sinni. Þá hafi ýmislegt gerst í millitíðinni, endurfjármögnun félagsins sé lokið og hagræðingaraðgerðir hafi skilað sér í níu mánaða uppgjöri. Ennfremur sé verðmæti skráðs félags meira en óskráðs þar sem seljanleiki verður meiri.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.