Breska fjarskiptafyrirtækið Vodafone skaut öðrum fyrirtækjum ref fyrir rass þegar það tryggði sér ráðandi hlut í indverska fjarskiptafyrirtækinu Hutchinson Essar en það er fjórða stærsta fyrirtæki sinnar tegundar í landinu. Vodafone reiðir fram 11.1 milljarða Bandaríkjadala fyrir 67% í Hutchinson Essar og yfirtekur tveggja milljarða dala skuld. Miðað við kaupverðið er Hutchinson Essar metið á 19 milljarða dala og kaup Vodafone á hlutnum er stærsta einstaka fjárfesting erlends fyrirtækis í sögu Indlands.

Ásamt kaupunum hefur Vodafone gert samning við Bharti, sem er stærsta fjarskiptafyrirtæki Indlands, um að fá aðgang að fjarskiptaneti þess. Sérfræðingar telja að slíkt samkomulag muni leiða til sparnaðar sem gæti réttlætt hið háa verð sem Vodafone greiðir Hutchinson Essar. Ásamt því samkomulagi hefur fyrirtækið, sem á tíu prósenta hlut í Bharti, veitt því kauprétt á hlutnum fyrir 1.6 milljarða dala. Auk þessa hefur stjórn Vodafone boðist til þess að kaupa restina af hlutabréfunum í Hutchinson Essar af Essar-samsteypunni fyrir sömu upphæð og greitt var fyrir 67% hlutinn.

Arun Sarin, aðalframkvæmdastjóri Vodafone, segist vera sannfærður um að um frábæra fjárfestingu sé að ræða og að Hutchinson Essar falli einkar vel að starfsemi fyrirtækisins, en stjórnendur þess hafa í auknum mæli horft til fjárfestinga á þróunarmörkuðum. Þrátt fyrir að sumir telji Vodafone borga of hátt verð fyrir hlutinn hækkaði gengi bréfa félagsins í kauphöllinni í London í gær. Ánægja hlutabréfafjárfesta með tíðindin kann að skýrast meðal annars af því að kaup Vodafone á tyrkneska símafyrirtækinu Telsim þykja vel heppnuð.

Vodafone barðist við Reliance, sem er þriðja stærsta fjarskiptafyrirtæki landsins, Hinduja Group og Essar um hlutinn í Hutchinson Essar. Essar á 33% hlut í Hutchinson Essar. Lagaumhverfi Indlands hamlar hinsvegar að Vodafone kaupi þann hlut þar sem að leyfilegt eignarhald erlendra fjárfesta á indverskum fyrirtækjum miðast við 74%. Hinsvegar sögðu fjölmiðlar frá því að Sarin muni funda með öðrum eigendum Hutchinson Essar í vikunni. Í janúar fundaði hann með indverskum ráðamönnum og að eigin sögn var það til þess að öðlast skilning á lagaumhverfi fyrri erlenda fjárfestingu í landinu.

Hutchinson Essar þjónar um 23 milljónum viðskiptavina á þeim fjarskiptamarkaði sem vex hvað hraðast í heiminum. Talið er að farsímanotendum fjölgi um sjö milljónir í hverjum mánuði og samkvæmt spám stjórnvalda í Nýju-Delí munu farsímanotendur telja um hálfan milljarð manna í lok þessa áratugar. Hutchinson Essar hefur um 16 prósenta markaðshlutdeild í dag en stjórnendur fyrirtækisins stefna að því að auka hlutdeildina í 25 prósent á næstu fimm árum. Með kaupunum er gert ráð fyrir að tuttugu prósent af tekjum Vodafone komi frá starfsemi í Austur-Evrópu, Miðausturlöndum, Afriku og Asíu. Stjórnendur fyrirtækisins gera ráð fyrir að þetta hlutfall verði komið í þriðjung eftir fimm ár sökum vaxtar fjarskiptamarkaðarins á Indlandi.