Gera má ráð fyrir að vodkaflaska (700 ml. 37,5%) komi til með að hækka í verði um 9,2%, úr 3.360 kr. í 3.669 kr., eftir að ný lög voru samþykkt á Alþingi í gær um 12,5% hækkun á áfengis- og tóbaksgjaldi.

Á meðfylgjandi töflu má sjá verðhækkun annarra áfengistegunda. Bjór kemur til með að hækka um 5,8% og rauðvín um 5,3%.

Áfengisgjald er innheimt við innflutning og er innifalið í innkaupsverði ÁTVR frá birgjum. Vegna nýrra laga verður birgjum gefinn kostur á að tilkynna nýtt verð til ÁTVR og verðhækkunin mun taka gildi í kjölfarið.