Lítt þekktur vogunarsjóður Archegos olli nokkrum alþjóðlegum bönkum stórtjóni á föstudaginn og leiddi af sér verðfall hlutabréf nokkurra félaga í 30 milljarða dollara brunaútsölu hlutabréfa.

Málið hefur vakið nokkra athygli , sér í lagi í ljósi þess að Bill Hwang, stjórnandi sjóðsins var dæmdur fyrir innherjasvik árið 2012. Engu síður tókst honum að gera afleiðusaminga fyrir meira en 50 milljarða dollara og tók stórar stöður í nokkrum félögum án þess að þurfa að greina frá því opinberalega. Talið er að eignir Archegos hafi numið um 10 milljörðum dollara. Sjóðurinn var því mjög skuldsettur.

Þegar sjóðnum tókst ekki að standast veðkallskröfur á föstudaginn hófu bankar sem sjóðurinn átti í viðskiptum við að losa hlutabréfastöður sem teknar höfðu verið fyrir Archegos. Það olli hruni hlutabréfa nokkurra félaga. Bréf í ViacomCBS féllu til að mynda um 30%.

Í gegnum afleiðusamninga, svokallað heildarávöxtunarsamninga (e. total return swap), við fjölda banka gat félagið byggt upp stöður sem í sumum tilfellum samsvöruðu yfir 10% hlut í einstaka fyrirtækjum án þess að þurfa að tilkynna um það opinberlega. Þá vissu bankarnir líklega ekki fyllega hve umfangsmiklum viðskiptum félagið ætti í við aðra banka.

Japanski bankinn Nomura er talinn hafa tapað tveimur milljörðum dollara á Archegos og Credit Suisse 3 til 4 milljörðum dollara. Hlutabréfaverð Credit Suisse féll um 14% á mánudaginn og Nomura um 16%. Talið er að japanski bankinn Mitsubishi UFJ Financial hafi tapað 300 milljónum dollara en Goldman Sachs og Morgan Stanley hafi brugðist fyrr við og tekist að selja bréf í tæka tíð og forðað þannig verulegu tapi.

Málið þykir minna mjög á fall Long Term Capital Management árið 1998 sem var nærri því að valda fjármálakreppu áður en félaginu var bjargað.