Skrúfað verður fyrir framleiðslu á fólksbílum undir merkjum Volvo í einni af stærstu verksmiðjum fyrirtækisins í Torsland í Svíþjóð í eina viku um næstu mánaðamót. Ástæðan er samdráttur í bílasölu, ekki síst í Evrópu. Þetta er liður í hagræðingu hjá Volvo. Þegar var búið að hægja á framleiðslunni og fækka bílum sem af færibandinu koma úr 57 í 50 á klukkustund.

Fjallað er um málið í IndustryWeek .

Það er kínverska fyrirtækið Geely sem á bílaframleiðslu Volvo í Svíþjóð. Bandaríski bílarisinn Ford keypti framleiðsluna á bílunum árið 1999. Þegar hagnaðurinn lét á sér standa árið 2005 var hafist handa við að koma rekstrinum annað. Kínverjarnir keyptu svo fyrirtækið fyrir tveimur árum.