Samkvæmt Hálf fimm fréttum Kaupþings mun Bakkavör birta uppgjör sitt fyrir þriðja ársfjórðung þann 25. október næst komandi. Aðstæður í Bretlandi hafa verið erfiðar á breskum neysluvörumarkaði það sem af er ári vegna votviðris og vaxtahækkana og verð á hráefnum s.s. kartöflum, hrísgrjónum og hveiti hefur hækkað umtalsvert frá síðasta ári.

Það hefur komið niður á framlegð fyrirtækja eins og Bakkavarar sem starfa í framleiðslu og sölu á tilbúnum réttum og öðrum matvælum. Eftirspurn eftir framleiðslu Bakkavarar er þó áfram mikil og vaxandi og því eigum við von á því að salan verði með svipuðu móti og á 2. ársfjórðungi eða 371m punda, en búumst við lakari EBITDA framlegð eða um 29,7m punda sem er um 10,6% af sölu á fjórðungnum.