Í gær birtist á vef Viðskiptablaðsins frétt um lögmann sem elti ferðamenn af Langjökli til að bjóða þeim aðstoð við að sækja bætur á fyrirtækið sem bauð upp á ferð til þeirra. Ágengari viðskiptahættir virðast færast í aukana hjá einhverjum í stéttinni en nýverið var fyrirkomulagi dagskrárbirtingar dómstóla á höfuðborgarsvæðinu breytt vegna ágengra símtala tiltekins lögmanns.

Í siðareglum lögmanna, síðasta heildarendurskoðun þeirra tók gildi árið 2000, er ekki að finna neitt pósitíft ákvæði sem girðir fyrir slíka viðskiptahætti. Þau er aftur á móti hægt að finna í einhverju nágrannalanda okkar. Í bresku siðareglunum er til að mynda grein sem bannar að sitja fyrir mögulegum umbjóðanda, nálgast hann á sjúkrahúsi eða á vettvangi slyss. Háttsemin hefur á ensku verið kölluð „ambulance chasing“.

„Lögmanni ber í störfum sínum að gæta heiðurs lögmannastéttarinnar og sýna öllum aðilum virðingu jafnt í ræðu, riti og framkomu. Án þess að taka afstöðu til þessa tiltekna atviks þá tel ég háttsemi sem þessa almennt ekki samrýmast góðum lögmannsháttum,“ segir Berglind Svavarsdóttir, formaður Lögmannafélags Íslands (LMFÍ).

Unnið að breytingum undanfarið

Undanfarin misseri hefur verið unnið að endurskoðun á siðareglum lögmanna en til stóð að leggja breytingatillögur fyrir aðalfund LMFÍ á síðasta ári. Það tókst ekki af óviðráðanlegum ástæðum og er nú stefnt að því að leggja þær fyrir til félagsfund á þessu ári.

Breytingatillögurnar voru sendar félagsmönnum á síðasta ári. Meðal breytinga sem lagðar eru til er að skylt verði að hafa aðgengilegar upplýsingar um hverjir séu eigendur að lögmannsstofu og skerpt er á ákvæði um hagsmunaárekstur lögmanns um að hann skuli ekki fara með mál tveggja eða fleiri skjólstæðinga ef hagsmunir þeirra rekast saman. Ákvæði um hvað telst hæfileg þóknun fyrir þjónustu lögmanns er tekið til endurskoðunar og svo er þar að finna nýtt ákvæði þess efnis að stjórn LMFÍ geti sent úrskurðarnefnd lögmanna kvörtun.

Í breytingatillögunum er ekki að finna, enn sem komið er, ákvæði sem er jafn afdráttarlaust og áðurnefnt ákvæði bresku siðareglnanna. Þó er þess getið að lögmaður megi auglýsa og kynna þjónustu sína „svo sem samrýmist lögum og góðum lögmannsháttum“ en þar er orðunum „lögum og“ bætt við núgildandi ákvæði reglnanna. Spurð um það hvort mögulegt sé að skerpt verði á ákvæðinu til að girða fyrir „ambulance chasing“, með vísan til sjónarmiða um skýrleika refsiheimilda, segir Berglind að það geti vel verið að slíkt verði tekið til skoðunar áður en tillögurnar verða lagðar fyrir félagsfund LMFÍ.

Dagskrárbirtingu breytt vegna símtala

Að undanförnu hafa áhugamenn um héraðsdómsstóla landsins merkt breytingu í birtingu mála á dagskrá dómstólanna tveggja á höfuðborgarsvæðinu. Á það sérstaklega við í sakamálum þar sem ákæra er gefin út af lögreglu. Heimildir blaðsins herma að það hafi verið gert meðal annars vegna þess að einhverjir lögmenn – einn tiltekinn hafi farið þar fremstur í flokki – hafi hringt í nær alla sakborninga á dagskránni óháð því hvort þeir hafi haft verjanda eður ei. Í einhverjum tilfellum hafi hlutaðeigandi kynnt sig sem starfsmann dómstóls og í öðrum tilfellum tjáð sakborningi að það tíðkaðist ekki að sami verjandi kæmi að málinu á rannsóknarstigi og fyrir dómstólum. Ótvírætt er samkvæmt siðareglum að slík háttsemi stenst þær ekki og getur varðað áminningu eða sviptingu réttinda.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .