Úrvalsvísitalan hækkaði um ríflega 43% á síðasta ári og þrjú félög voru skráð í Kauphöllina. Í apríl voru fasteignafélögin Reitir og Eik skráð og í október var Síminn skráður á markað. Í dag eru 16 félög á aðallistanum. Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, segist eiga von á því að þrjú til fimm ný félög verði skráð á þessu ári.

„Það er í sjálfu sér ekkert fast í hendi," segir Páll. „Ég á engu að síður von á því að gangurinn í skráningum verði svipaður og undanfarin ár. Ég byggi þetta meðal annars á því að það eru nokkrir aðilar, sem hafa lýst því yfir opinberlega að þetta sé einn af þeim kostum sem þeir eru að velta fyrir sér. Þá á ég við Skeljung, Advania og Ölgerðina. Ég byggi þetta einnig á því að það eru önnur verkefni, sem annaðhvort er verið að skoða eða jafnvel verið að undirbúa skráningu á. Þetta eru svona þrjú til fjögur verkefni, sem ekki hafa verið í opinberri umfjöllun, en  ég held að eitthvað af þeim skili sér inn á markað á þessu ári og hugsanlega eitthvað síðar."

Að sögn Páls yrðu það vonbrigði ef færri félög yrðu skrá á markað í ár en í fyrra. "Ég myndi segja að þrjár til fimm skráningar væri hóflegt mat."

Úrvalsvísitalan hækkaði um 43% á síðasta ári. Spurður hvort hann eigi von á því að þróunin verði svipuð á þessu ári svarar Páll: „Ég má ekki tjá mig um verðþróun á markaði en efnahagsástandið lítur vel út og það virðast vera græn ljós á flestum stöðum. Framleiðsluhorfur eru góðar, verðbólgan lítur vel út, atvinnuleysi er lítið og það er fyrirsjáanlegur hagvöxtur. Ég myndi telja að þetta verði hagstætt ár fyrir félag til að skrá sig á markað, ná sér í fjármagn. Gangurinn í efnahagslífinu er góður og það er hugur í mönnum."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .