Enn er ekki komið á hreint hvenær Reitir fasteignafélag verður skráð á markað. Forstjóri félagsins, Guðjón Auðunsson, segir í samtali við Viðskiptablaðið að hann vonist til að það náist á fyrri hluta þessa árs.

„Við erum að ljúka nauðsynlegri endurskipulagningu á félaginu og ekki er hægt að fara í skráningarferlið fyrr en að henni lokinni. Við höfðum áður sagt að ætlunin væri að skrá Reiti á markað fyrir síðustu áramót en það gekk ekki eftir.“

Fram hafa komið efasemdir um að fyrirtækinu takist að skrá félagið á markað í ár, m.a. í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka í nóvember í fyrra. „Við verðum tilbúin þegar við erum tilbúin, en ég vonast til að okkur takist að skrá félagið á markað á fyrri hluta þessa árs,“ segir Guðjón.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum Tölublöð hér að ofan.