Að sögn Einars Arnar Ólafssonar, framkvæmdastjóra Fyrirtækjaráðgjafar Glitnis, gerir bankinn sér vonir um að hafa lokið sölu á Skeljungi fyrir næstu áramót. Nú þegar hafa nokkrir aðilar spurst fyrir um fyrirtækið en ekki er gert ráð fyrir að áreiðanleikakönnun ljúki fyrr en eftir nokkrar vikur.

Verðhugmyndir seljanda eru ekki gefnar upp en heimildir Viðskiptablaðsins segja að hugsanlegt verðmæti fyrirtækisins gæti verið á bilinu 8 til 12 milljarðar króna.

Að sögn Einars Arnar eru þeir býsna sannfærðir um að þeir nái að selja félagið þannig að öllum líki. En hvað felst í sölutryggingu bankans? "Það þýðir í sjálfu sér að það er búið að tryggja seljanda eitthvert lágmarksverð. Ef enginn vill kaupa félagið á verði sem okkur og seljanda líkar, gæti það fræðilega farið svo að við eignuðumst félagið. Þetta er nú eitthvað sem við gerum reglulega og höfum ekki lent í ennþá. Við þykjumst hafa búið þannig um hnútana að það endi ekki þannig," sagði Einar Örn. Sölutryggingin þýðir í raun að Uppspretta ehf. á enn félagið og getur selt það á þeim tíma sem Glitnir ætlar sér. Ef félagið selst þannig fyrr,reynir að sjálfsögðu ekki á sölutrygginguna.

Að sögn Einars Arnar er gert ráð fyrir að væntanlegum fjárfestum standi til boða eitthvert kynningarefni innan fárra vikna. Fyrirtækið verður boðið til sölu hér heima og erlendis.

Skeljungur rekur hátt í 100 verslanir og þjónustustöðvar undir merkjum Shell um land allt, auk þess sem það rekur Bensínorkuna. Þá keypti Skeljungur fyrr á árinu allan rekstur Shell í Færeyjum og stefnir að frekari útrás á næstunni. Starfsmenn Skeljungs eru um 400 talsins, þar af um 300 á Íslandi.