„Það eru vonbrigði að Evrópusambandið og Færeyingar skuli fara framhjá okkur,“ segir Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra í samtali við VB.is um samning sem Evrópusambandið, Færeyingar og Norðmenn hafa gert vegna skiptingu sameiginlegs makrílafla. Ísland er ekki aðili að því samkomulagi.

Gunnar Bragi bendir á að íslensk stjórnvöld eigi eftir að sjá þann samning sem tilkynnt var í kvöld að hefði verið gerður. Hann vilji því bíða með frekari viðbrögð. „Við töldum okkur vera búina að beygja okkur mjög lang t gagnvart Evrópusambandinu,“ segir Gunnar Bragi. Þá hafi Íslendingar reynt að styðja Færeyinga með ráðum og dáð í þessari deilu. Það sé því mjög skrýtið að þessir aðilar hafi samið við Norðmenn án aðkomu Íslendinga.

Samkvæmt upplýsingum VB.is frá atvinnuvegaráðuneytinu mun Sigurður Ingi Jóhannsson ráðherra sjávarútvegsmála ekki tjá sig fyrr en á morgun.