*

fimmtudagur, 29. júlí 2021
Innlent 21. júní 2021 12:29

Vongóð um sigur gegn Hvalnum

Dýraverndunarsamtökin IFAW eru vongóð um að hvalveiðar á Íslandi muni brátt heyra sögunni til en aðeins Hvalur hf. stundar enn veiðar hér á landi.

Snær Snæbjörnsson
Hvalu hf. hefur ekki stundað langreyðaveiðar síðan árið 2018.
Haraldur Guðjónsson

Alþjóðlegu dýraverndunarsamtökin IFAW eru vongóð um að hvalveiðar á Íslandi muni brátt heyra sögunni til. Eingöngu félag Kristjáns Loftssonar, Hvalur hf., er með leyfi til hvalveiða í atvinnuskyni við Íslandsstrendur. Þetta kemur fram í tilkynningu frá IFAW

Þrátt fyrir að Hvalur hf. hafi leyfi til langreyðaveiða til ársins 2023 þykir ljóst að ekkert verði af hvalveiðum hér á landi, þriðja árið í röð. Erfiðar samkeppnisaðstæður í Japan, lágt afurðaverð og strangar kröfur til hvalveiða á Íslandi vega þyngst. Reynt hefur verið að markaðssetja kjötið í Japan en það hefur gengið illa sökum niðurgreiðslna japanskra stjórnvalda á hvalveiðum þar í landi.

Sjá einnig: Einn sjöundi keyptur út úr Hvalnum

Hvalveiðar Íslendinga hafa notið lítilla vinsælda á alþjóðavettvangi og hafa bandarísk stjórnvöld til að mynda reglulega gripið til Pelly-viðaukans gegn Ísland út af hvalveiðum. Pelly-viðaukinn gefur forseta Bandaríkjanna rétt til að ákvarða þvingunaraðgerðir gegn löndum sem eru talin stunda veiðar á dýrum í útrýmingarhættu. Bandarísk stjórnvöld hafa þó aldrei gripið til viðskiptaþvingana gegn Íslandi út af hvalveiðum.

Þá segir í tilkynningunni að hvalir séu dýrmætari íslenskum efnahag á lífi og að hagnaður af hvalaskoðun hér á landi nemi 20 milljónum evra árlega, um þremur milljörðum króna. Þá fari um 350.000 manns í hvalaskoðun hér landi ár hvert.