Fyrirtækið Vonta International, sem er í eigu manns sem er sakaður um mansal á Vík í Mýrdal skilaði tapi á sínu fyrsta rekstrarári. Greint var frá því í gær að einn maður væri í haldi vegna gruns um mansal. Lögreglan fann tvær konur sem hafa stöðu þolenda mansals samkvæmt heimildum 365 miðla.

Maðurinn sem var handtekinn stýrði saumafyrirtækinu Vonta International, sen það sá um að sauma fyrir Drífa/IceWear og er undirverktaki þess fyrirtækis.

Fyrirtækið var stofnað í júlí 2014 en það skilaði inn ársreikningi fyrir það ár. Tap var af rekstri félagsins það ár sem nam 395.591 krónu. Enginn arður var greiddur til hluthafa, en einn hluthafi var í félaginu. Tekjur félagins námu tæpum 4,3 milljónum króna og rekstrargjöld námu tæplega 4,7 milljónum, þar af launakostnaður sem nam tæpum 2,6 milljónum króna.