Theresa May, formaður Íhaldsflokksins og forsætisráðherra, er nú í nokkuð snúinni stöði í kjölfar þess að flokkur hennar glutraði niður meirihluta sínum á breska þinginu, í kosningum sem að hún boðaði sjálf til að styrkja stöðu sína sem forsætisráðherra. May lagði áherslu á að hún þyrfti umboð sem forsætisráðherra til að leiða þjóðina í gegnum útgöngu Breta úr Evrópusambandinu.

Úrslitin urðu þau að Íhaldsflokkurinn tapaði tólf þingsætum og hlaut 317 af 650 og tapaði því hreinum meirihluta sínum eftir að talið hafði verið 648 af 650 kjördæmum. Flokkurinn hefði þurft 326 til að halda hreinum meirihluta í þinginu. Hins vegar bætti Verkamannaflokkurinn við sig 29 sætum og endar að öllum líkindum með 261 sæti á breska þinginu, sem er mikill kosningasigur fyrir Jeremy Corbyn og flokksmenn hans. Skoski þjóðarflokkurinn (SNP) tapaði talsverðu fylgi og endaði með 35 þingsæti, Frjálslyndir demókratar bættu lítillega við sig og enduðu með 12 sæti og töpuðu UKIP sæti sínu á þingi.

Hvað gerist nú?

Þar sem að enginn flokkur náði hreinum meirihluta — enduðu kosningarnar í því sem kallað er „hengt þing“ ( e. hung parliament ). Því er staðan nokkuð erfið fyrir Íhaldsmenn, ef þeir vilja halda áfram að stjórna lögum og lofum í Bretlandi, verða þeir að vinna með öðrum flokkum. Árið 2010, kom upp svipuð staða, en þá vann David Cameron, þáverandi forsætisráðherra Breta, með Frjálslyndum demókrötum. En nú er öldin önnur og eru Frjálslyndir demókratar og Íhaldsmenn á gjörsamlega öndverðum meiði hvað varðar útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Annars þyrfti Verkamannaflokkurinn að mynda ríkisstjórn með litlu flokkunum sem fengu stök þingsæti, ásamt SNP og jafnvel Frjálslyndum demókrötum og Græningjum - sem gæti reynst þrautinni þingra.

Mun May segja af sér?

Þegar Theresa May boðaði til kosninganna í apríl , þá var staða flokksins gífurlega sterk, ef litið var til skoðanakannana. 16. apríl, stuttu áður en May boðaði til kosninganna, mældist fylgi flokksins 21 prósentustigum meira en fylgi Verkamannaflokksins. Í reynd fékk Íhaldsflokkurinn 42% og Verkamannaflokkurinn 40% fylgi.

Í frétt Telepgraph kemur fram að þrátt fyrir „hörmuleg úrslit“ neiti Theresa May að segja af sér sem forsætisráðherra. Jeremy Corbyn hefur kallað eftir afsögn May. „Færðu þig og leyfðu ríkisstjórn að verða til að sem að endurspeglar vilja fólksins í raun og veru,“ sagði Corbyn. Í samtali við BBC , sagði háttsettur þingmaður Íhaldsflokksins: „Ég get ekki séð fram á það að hún haldi sæti sínu.“ Staðan er því óneitanlega veik hjá Theresu May, sama hvernig fer.

Hvað með Brexit?

Kosningaúrslitin gætu haft geysimikil áhrif á samningstöðu Breta gagnvart Evrópusambandinu . Eins og kemur fram hér að ofan, var upprunaleg meining May með því að kalla til kosninga að styrkja stöðu sína sem forsætisráðherra svo að hún væri í betri samningstöðu. Það gerðist ekki. Í frétt BBC er minnt á að Theresa May sagði, þegar hún boðaði til kosninganna: „Hvert atkvæði sem að Íhaldsflokkurinn fær, verður til þess að ég er í sterkari stöðu að semja fyrir hönd Bretland við Evrópusambandið.“ Allt kom fyrir ekki.

Leiðtogar Evrópusambandsins verða væntanlega nokkuð óánægðir með þá óvissu sem skapast í kjölfar kosninganna. Háttsettur aðili innan sambandsins, hinn þýski Gunther Oettinger, sagði að þetta gæti þýtt að samningaviðræður Breta og Evrópusambandsins gætu tafist enn frekar. Guy Verhofstadt, Evrópuþingmaður og fyrrverandi forsætisráðherra Belgíu, sagði á Twitter að þetta væri enn annað sjálfsmarkið hjá Bretum. „Fyrst Cameron og nú May, mun gera flóknar samningaviðræður enn flóknari.“

Gengi hlutabréfa á uppleið, pundið hrynur

Gengi breska pundsins féll nokkuð í nótt og hefur lækkað um 2% gagnvart dollaranum og er metið á 1,27 dollara. Markaðir hafa áhyggjur af þeim óstöðugleika sem skapast gæti vegna kosningaúrslitanna. Pundið veiktist jafnframt um 1,7% gagnvart evrunni.

Hins vegar hefur hefur hlutabréfaverð hækkað lítillega við opnun markaða. FTSE 100 vísitalan í Bretlandi hækkaði um 0,9 prósentustig og stendur nú í 7.515,31 stigi. Fyrirtækin sem að hækkuðu í viðskiptum voru þó flest alþjóðleg, þar sem að pundið veiktist þýðir að hagnaður fyrirtækjanna eykst erlendis. Stórfyrirtæki á borð við GlaxoSmithKine og Diageo, hækkuðu um 2 prósentustig.