Vöruviðskiptajöfnuður er áætlaður neikvæður um 34 milljarða króna á þriðja ársfjórðungi 2020. Á sama ársfjórðungi var þjónustujöfnuður áætlaður jákvæður um 20,4 milljarða. Vöruútflutningur var áætlaður 154 milljarðar en vöruinnflutningur 188 milljarða, frá þessu er greint á vef Hagstofunnar.

Áætlað er að vöru- og þjónustujöfnuður hafi verið neikvæður um 13,6 milljarða króna á þriðja ársfjórðungi 2020 en hann var jákvæður um 60,4 milljarða á sama tíma 2019. Á milli ára dróst útflutningur saman um 35% en innflutningur um 18%.

Fyrstu þrjá ársfjórðunga ársins 2020 var vöru- og þjónustujöfnuðurinn neikvæður um 30,5 milljarða en var jákvæður um 109,4 milljarða á sama tíma 2019.

Fluttar voru út vörur fyrir 61,4 milljarða króna í október 2020 og inn fyrir 68,6 milljarða króna fob (74,2 milljarða króna cif). Vöruviðskiptin í október, reiknuð á fob verðmæti, voru því óhagstæð um 7,1 milljarð króna. Til samanburðar voru vöruviðskiptin óhagstæð um 0,8 milljarða króna í október 2019 á gengi hvors árs fyrir sig.