Vöruskiptaafgangur Kína jókst um 23% í janúar samanborið við árið í fyrra og var 19,5 milljarður bandaríkjadala.

Afgangurinn er töluvert meiri en meðalspá Bloomberg gerði ráð fyrir en hún hljóðaði uppá 17 milljarða dala. Þetta kemur fram í Vegvísi Landsbankans.

Þá segir greininadeild Glitnis í Morgunkorni sínu á föstudag að útflutningur hafi aukist meira nú en hann hefur gert undanfarna sex mánuði, þrátt fyrir tilraunir til að draga úr honum með hærri útflutningstollum og hærra gengi kínverska júansins.

„Voru þessar aðgerðir m.a. viðbrögð við gagnrýni Bandaríkjamanna sem segja að lágt gengi júansins ýti undir óhóflegan útflutning til Bandaríkjanna sem skaði bandaríska hagkerfið,” segir í Morgunkorni Glitnis.

Greiningadeild Landsbankans segir aukinn vöruskiptaafgang kemo nokkuð á óvart vegna styrkingar júansins og hærri útflutningstolla

„Þrátt fyrir það jókst sala útflutningsvara en hún hefur ekki vaxið hraðar í sex mánuði. Heildarútflutningur frá Kína nam 109,7 mö.USD í janúar en um einn fimmti þeirra vara er fluttur út til Bandaríkjanna. Horfur voru á að minnkandi eftirspurn í Bandaríkjunum hefði samdráttaráhrif á hagvöxt í Kína en spár nú sýna bjartari hlið og hljóða uppá um 10% hagvöxt samkvæmt Bloomberg,” segir í Vegvísi.