*

miðvikudagur, 19. júní 2019
Innlent 23. mars 2019 13:19

Vöxtur í flutningsmiðlun en hlúð að grunninum

Vilhelm Már Þorsteinsson, forstjóri Eimskips, segir að hvorki hafi verið farið of geyst í fjárfestingum erlendis né of mikið lagt undir.

Kristján Torfi Einarsson
Vilhelm Már Þorsteinsson tók við stöðu forstjóra hjá Eimskip síðastliðinn janúar.
Haraldur Guðjónsson

Í tilkynningu með ársreikningi Eimskips fyrir árið 2018 er haft eftir Vilhelm Má Þorsteinssyni forstjóra að afkoma félagsins hafi valdið vonbrigðum. Hagnaður ársins dróst saman um 56% milli ára og tap var á rekstrinum á síðasta ársfjórðungi ársins. Er verri afkoma til marks um að miklar fjárfestingar Eimskips erlendis síðustu ár hafi mistekist? 

„Nei, alls ekki. Það eru nokkrar ástæður fyrir því að afkoman var undir væntingum á síðasta ári og þótt árangurinn i flutningsmiðluninni hafi verið minni en reiknað var með reið það ekki baggamuninn. Ein af ástæðunum er samdráttur í frystiflutningum frá Noregi en niðurstaðan þar var töluvert verri en áætlanir gerðu ráð fyrir og langt undir því sem var árið á undan. Önnur ástæða tengist vikulegum siglingum til Bandaríkjanna sem hófust í lok árs 2017 sem fólu í sér aukinn kostnað á árinu 2018. Þriðja ástæðan er sú að eftir að hafa skilað verulega góðum hagnaði árið 2017 var töluverður samdráttur í tveimur af þeim fyrirtækjum í flutningsmiðlun sem félagið keypti á árunum 2016 og 2017 í Evrópu.  

Loks er rétt að benda á að einskiptiskostnaður var nokkuð hærri á síðasta ári en við eigum að venjast. Hann var jákvæður á fjórða ársfjórðungi 2017, en vegna uppsagna og skipulagsbreytinga féll nokkur einskiptiskostnaður á þann fjórðung í fyrra. Þetta skekkir töluvert myndina sem samanburður á hagnaði dregur upp. Þvert á það sem slíkur samanburður gefur til kynna þá var afkoman af kjarnastarfsemi betri síðustu þrjá mánuðina í fyrra en á sama tímabili árið 2017. 

Þetta voru vonbrigðin í fyrra, en nú skiptir mestu að bregðast rétt við. Almennt er kjarnastarfsemi félagsins í góðum og traustum skorðum, fjárhagsstaða þess sterk og þótt það hafi tekið lengri tíma en reiknað var með að ná upp magni í nýjum siglingum til Ameríku ganga þær mjög vel núna og skapa tækifæri fyrir okkur til að stækka og vaxa enn frekar á þessum stóra markaði. Með vikulegum siglingum erum við orðin raunverulegur valkostur fyrir marga aðila sem við gátum ekki sinnt áður. 

Það kann að vera að sumum finnist að fjárfestingar og vöxtur okkar í flutningsmiðlun erlendis hafi ekki skilað nægilegum árangri. Hér verður hins vegar að hafa hugfast að það tekur bæði tíma að samþætta nýjar einingar við kerfið sem var til staðar og ná fram þeirri hagræðingu sem fjárfestingarnar gera mögulega. Þessi vinna er í gangi og þótt enn sé nokkuð í land er ég bjartsýnn á að ávinningurinn af þessum fjárfestingum muni skila sér til hluthafa þegar upp verður staðið. Sömuleiðis kunna aðrir að hafa áhyggjur af því að of geyst hafi verið farið og of mikið verið lagt undir í þessum fjárfestingum. Slíkar vangaveltur eru góðra gjalda verðar en hafa ber í huga að fjárhagur Eimskips er mjög sterkur, eiginfjárhlutfallið er um 50% og skuldsetning er ekki mikil í ljósi þeirra miklu og traustu eigna sem eru í félaginu. Hins vegar er það þannig, eins og kom fram í nýlegri afkomukynningu okkar, að aukin áhersla verður á að skila frekara sjóðsflæði frá rekstri á komandi misserum.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is