Það kom starfsmönnum Instagram í opna skjöldu þegar Kevin Systrom og Michel Krieger, stofnendur fyrirtækisins, tilkynntu þeim að Facebook hefði keypt Instagram fyrir milljarð dollara mánudagsmorguninn 9. apríl 2012. Instagram var einungis tveggja ára gamalt með 13 starfsmenn og hafði þar til nýlega einungis verið aðgengilegt eigendum iPhone síma. Þetta var langhæsta upphæð sem greidd hafði verið fyrir snjallsímaforrit.

Segja má að Facebook hafi greitt 77 milljónir dollara fyrir hvern starfsmann, hátt í 10 milljarða króna. Facebook var þó fremur að horfa á forritið og stofnendurna en starfsmannafjöldann. Þótt Instagram hefði einungis 30 milljónir notenda samanborið við yfir 800 milljónir hjá Facebook, þá benti margt til þess að Instagram væri að ná yfirráðum yfir ákveðnum markaði.

Notendum Instagram var að fjölga hratt og með því að eignast fyrirtækið var Facebook að losna við hugsanlegan keppinaut síðar meir. Mark Zuckerberg, forstjóri Facebook, hafði gefið út að hann vildi frekar að næsta Facebook yrði til innan veggja Facebook en utan þess.

Dorsey taldi sig svikinn

Kaupin komu fleirum en starfsmönnum Instagram á óvart. Jack Dorsey, forstjóri Twitter, var einn af fyrstu fjárfestunum í Instagram og mögulega fyrsti Instagram-áhrifavaldurinn. Systrom, hans gamli vinnufélagi, hafði átt í viðræðum við hann um að Twitter myndi kaupa Instagram. Dorsey varð ævareiður og eyddi Instagram aðgangi sínum — hann hafði verið svikinn.

Systrom taldi hins vegar Zuckerberg hafa boðið sér eitthvað sem aðrir höfðu ekki gert. Frelsi til að reka Instagram sem sjálfstæða einingu innan Facebook, en á sama tíma njóta þeirra tóla og tækja sem Facebook hafði yfir að ráða til að gera Instagram kleift að vaxa sem hraðast. Mörgum þótti fjárhæðin ansi há fyrir farsímaforrit sem bjó ekki yfir neinum eiginleikum sem ekki voru til á öðrum samfélagsmiðlum fyrir. Í dag þykja kaupin hins vegar ein þau best heppnuðu í sögu Kísildalsins. Enda náði Instagram milljarði notenda sex árum síðar og það stendur í dag undir meira en fjórðungi af tekjum Facebook. Um þess sögu alla er fjallað í verðlaunabókinni No Filter: The Inside Story of Instagram sem Sarah Frier skrifaði og kom út á síðasta ári.

Bókin byggir á viðtölum bæði við Systrom og Krieger auk fjölda annarra starfsmanna bæði Instagram og Facebook. Bókin veitir því innsýn inn í valdabaráttuna innan mesta samfélagsmiðlaveldis heimsins, Facebook, sem öllu jöfnu er hulið leyndarhjúpi. Enda skrifa svo gott sem allir sem mæta á skrifstofur Facebook undir plagg þar sem þeir heita því að gefa ekkert upp um það sem gerist innan veggja fyrirtækisins. Zuckerberg vildi hins vegar ekki ræða við Söruh og má segja að sé nokkurs konar óþokki í sögunni, enda gefst ekki færi á að segja hans hlið nema að takmörkuðu leyti.

Erfið sambúð Zuckerbergs og Systroms

Á síðustu árum hafa áhyggjur eftirlitsaðila og löggjafa af ægivaldi og einokunartilburðum Facebook aukist. Tæknirisinn á þau fjögur snjallsímaforrit sem oftast var hlaðið niður á síðasta áratug. Facebook og Messenger, skilaboðahluti Facebook, voru í tveimur fyrstu sætunum og næst komu Instagram og WhatsApp sem keypt var tveimur árum á eftir Instagram fyrir 18 milljarða dollara. Mark Zuckerberg hefur þurft að verja fyrirtækið fyrir þingnefndum og eiga við herferðir þar sem fólk er hvatt til að eyða sínum Facebook reikningi.

Fljótlega kom í ljós að þótt Systrom og Krieger fengju sitt sjálfstæði Kevin Systrom var orðaður við forstjórastól TikTok á síðasta ári, en ekki varð af því. Innan Facebook átti ólík menning innan annars vegar Instagram og hins vegar Facebook ekki sérlega vel saman. Eftir því sem Instagram óx gekk samstarf Systroms og Zuckerbergs sífellt verr sem lauk með því að Systrom og Krieger sögðu upp störfum árið 2018.

Missti af Twitter og Facebook

Það var ekkert endilega líklegt í upphafi að Systrom og Krieger kæmust svo langt með Instagram. 22 ára gamall hafði Systrom klúðrað tækifærinu til að verða einn af fyrstu starfsmönnum bæði Facebook og Twitter og vann stöku vaktir meðfram námi í Stanford á kaffihúsi. Þar afgreiddi hann pirraðan Mark Zuckerberg sem átti erfitt með að sætta sig við að Systrom hefði valið kaffihúsið fram yfir Facebook. Zuckerberg, sem er 25 cm lægri og hálfu ári yngri en Systrom, hafði nokkrum mánuðum fyrr boðið Systrom að taka þátt í að gera notendum mögulegt að hlaða upp myndaalbúmum á samfélagsmiðilinn, sem þá hét TheFacebook og var einungis aðgengilegur háskólanemum í Bandaríkjunum.

Zuckerberg talaði af miklum eldmóð um hvernig Facebook yrði næst opnað fyrir framhaldsskólanemum og í kjölfarið öllum heiminum. En svo var kreditkortinu hjá Zuckerberg hafnað og Systrom endaði á að hafna atvinnutilboðinu – hann vildi klára námið. Um svipað leyti og Systrom afgreiddi Zuckerberg var nýsköpunarfyrirtækið Odeo að stofna samfélagsmiðilinn Twttr, sem síðar fékk nafnið Twitter.

Systrom hafði verið starfsnemi hjá Odeo sumarið á undan og setið á móti Jack Dorsey, sérvitrum 29 ára forritara með hring í nefinu. Þrátt fyrir að vera að mörgu leyti ólíkir smullu þeir saman. Þeir höfðu báðir áhuga á sömu tónlistinni, góðu kaffi og ljósmyndun. Systrom hafði litla trú á samfélagsmiðlinum en fann engu síður fyrir smá eftirsjá, enda var Dorsey gerður að forstjóra miðilsins.

Nánar er fjallað um sögu Instagram í tímariti Frjálsrar verslunar sem kom út í mars. Hægt er að skrá sig í áskrift hér .