VR hefur sent stjórnarmönnun og eigendum Arion banka bréf þar sem nýlegri ákvörðun stjórnarinnar um 7% hækkun stjórnarlauna er mótmælt. Í bréfinu, sem undirritað er af Ólafíu B. Rafnsdóttur, formanni VR, segir að ákvörðun bankans gangi í berhögg við þá sátt sem náðist á vinnumarkaði í síðustu kjarasamningum og skorar félagið á stjórnina að draga þessa ákvörðun til baka.

„VR mótmælir harðlega ákvörðun stjórnar Arion banka frá því í mars 2014 að hækka laun stjórnarmanna bankans um 7%. Ákvörðun stjórnarinnar gengur í berhögg við þá sátt sem náðist á almennum vinnumarkaði í síðustu kjarasamningum þegar samið var um 2,8% almenna hækkun launa,“ segir í bréfi Ólafíu.

Hún segir í bréfinu að markmið kjarasamninganna sé að stuðla að auknum kaupmætti almenns launafólks sem hafi tekið á sig umtalsverða kjaraskerðingu á síðustu árum.  Til þess að ná því markmiði verði allir að sitja við sama borð, líka stjórnir fjármálafyrirtækja – 7% launahækkun stjórnarmanna í Arion banka sé óásættanleg.

VR skorar á stjórn bankans að draga ákvörðunina til baka og leggja þannig sitt af mörkum til að tryggja þann stöðugleika sem íslenskt launafólk gerir réttmæta kröfu um.